1. gr.
Félagið heitir Félag háskólakennara á Akureyri. Heimili þess og varnarþing er á Akureyri. Félagið er stéttarfélag í merkingu 5. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.
2. gr.
Hlutverk félagsins er að:
1. Semja um kaup og kjör.
2. Vinna að bættum kjörum og auknum réttindum félagsmanna.
3. Stuðla að eftir- og endurmenntun félagsmanna.
4. Vinna að bættri starfsaðstöðu félagsmanna.
5. Stuðla að bættri menntun og eflingu rannsókna.
3. gr.
Félagar geta orðið:
Félagsmenn í Félagi háskólakennara á Akureyri geta orðið starfsmenn Háskólans á Akureyri, tengdra stofnana og samstarfsstofnana sem hafa a.m.k. BA/BS próf eða sambærilegt próf frá viðurkenndum háskóla. Félagsmenn eru annað hvort með fulla aðild eða aukaaðild að félaginu. Aukafélagar hafa fullt málfrelsi og tillögurétt í félaginu en ekki atkvæðisrétt, kosningarétt eða kjörgengi. Þó er heimilt að veita aukafélögum atkvæðisrétt um sín sérmál, samkvæmt ákvörðun meirihluta félagsfundar hverju sinni. Fulla aðild eiga allir starfsmenn Háskólans á Akureyri, stofnana hans og samstarfsstofnana, sem hafa háskólapróf eða aðra sambærilega menntun og gegna a.m.k. 1/3 hluta starfs við skólann.
Starfsmenn Háskólans á Akureyri, stofnana hans og samstarfsstofnana, sem hafa háskólapróf eða aðra sambærilega menntun og gegna minna en 1/3 starfs við skólann eiga aukaaðild að félaginu.
Fyrrum félagsmenn sem þiggja atvinnuleysisbætur og greiða félagsgjald til félagsins teljast aukafélagar.
Stjórn félagsins tekur ákvörðun um inntöku nýrra félaga og skal hún staðfest árlega á aðalfundi
4. gr.
Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda eigi síðar en í maí ár hvert. Skal til hans boða með minnst tíu daga fyrirvara, og er hann þá lögmætur. Á aðalfundi ræður afl atkvæða í öllum málum nema þeim sem snerta breytingu á lögum félagsins. Til lagabreytinga þarf 2/3 atkvæða þeirra sem á fundi eru og greiða atkvæði.
5. gr.
Dagskrá aðalfundar er:
1. Fundargerð síðasta aðalfundar.
2. Ársskýrsla lögð fram.
3. Endurskoðaðir reikningar fyrra starfsárs lagðir fram og skýrt frá fjárhag félagsins. Starfs- og fjárhagsáætlun lögð fram vegna nýhafins starfsárs.
4. Staðfesting á inntöku nýrra félaga.
5. Ákvörðun um árgjald.
6. Tillögur til lagabreytinga.
7. Kosning stjórnar.
8. Kosning samninganefndar.
9. Kosning tveggja skoðunarmanna ársreiknings.
10. Önnur mál.
6. gr.
Reikningsár félagsins er frá 1. janúar til 31. desember.
7. gr.
Árgjald félagsmanna skal ákveðið á aðalfundi ár hvert.
8. gr.
Tillögum um lagabreytingar skal skilað til stjórnar eigi síðar en þrem vikum fyrir aðalfund og skal þess þá getið sérstaklega í fundarboði að tillaga til lagabreytinga verði tekin til meðferðar á fundinum og efni hennar lýst.
9. gr.
Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum: formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og meðstjórnanda, sem kjörnir eru leynilegri kosningu. Formann skal kjósa sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Stjórnarkjöri skal haga þannig að árlega sé kosinn formaður og tveir stjórnarmenn. Formaður er kjörinn til eins árs en aðrir stjórnarmenn til tveggja ára. Auk þess skal kjósa tvo varamenn í stjórn til eins árs.
10. gr.
Stjórn félagsins ræður málefnum félagsins með þeim takmörkunum sem lög þessi setja. Stjórnarfundi skal boða með tryggilegum hætti og að öllu jöfnu með minnst þriggja daga fyrirvara. Stjórnarfundur er ályktunarfær ef þrír stjórnarmenn hið fæsta sitja fund. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundi. Séu atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns eða varaformanns í fjarveru formanns. Ákvarðanir stjórnar skulu færðar til bókar.
11. gr.
Samninganefnd félagsins skal skipuð þrem félagsmönnum. Formann samninganefndar skal kjósa sérstaklega. Samninganefnd skal skipta með sér verkum.
12. gr.
Samninganefnd kemur fram fyrir hönd félagsins í hvers kyns samningaviðræðum við viðsemjendur þess. Samninganefnd skal undirbúa kröfugerð félagsins og kynna félagsmönnum á félagsfundi áður en kröfugerð er lögð fram fyrir viðsemjenda. Samninganefnd getur aldrei skrifað undir samning f.h. félagsins án fyrirvara um samþykki félagsfundar.
13. gr.
Félagsfund skal boða með minnst viku fyrirvara og er hann þá lögmætur. Skylt er stjórn að boða til félagsfundar ef minnst 1/3 hluti félagsmanna krefst þess.
14. gr.
Lög þessi öðlast þegar gildi.
(Með breytingum samþykktum á aðalfundum 23. október 1992, 12. nóvember 1999, 4. júní 2002 og 20. maí 2010).